Orlof og frídagar

Útsendir starfsmenn erlendra fyrirtækja eiga eins og aðrir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði rétt á 24 greiddum orlofsdögum hið minnsta, hafi  viðkomandi starfa heilt orlofsár hér á landi, en orlofsárið er frá 1. maí til 30 apríl.

Útsendir starfsmenn eiga rétt á orlofi  og orlofsgreiðslum, í samræmi við þær reglur sem orlofslög nr. 30/1987 kveða á um. Lögin segja til um lágmarksréttindi hvað þetta varðar en kjarasamningar kveða á um aukin réttindi svo sem tengd starfsaldri og lífaldri.

Gera verður greinamun á þeim orlofsdögum sem starfsmaður ávinnur sér með sinni vinnu annars vegar og þeim orlofslaunum sem hver vinnuveitandi greiðir til viðbótar við laun fyrir vinnu.

Orlofsdagar

Starfsmaður sem unnið hefur fullt orlofsár, frá 1. maí til 30. apríl, á rétt á að lágmarki 24 daga orlofi. Vinnur hann sér inn tvo orlofsdaga á mánuði. Ekki skiptir máli þótt hann hafi skipt um vinnuveitanda á tímabilinu. Þeir sem unnið hafa skemur eiga rétt á hlutfallslegu orlofi.

Þegar starfsmaður fer í orlof teljast laugardagar, sunnudagar og helgidagar ekki sem orlofsdagar.

Orlofslaun

Með vinnu hjá vinnuveitanda ávinnur starfsmaður sér rétt til launa í orlofi. Orlofslaun eru tilgreind á launaseðli starfsmanns og er lágmarksorlof 10,17% af öllum launum. Það jafngildir launum í 24 daga.

Laun í orlofi eru greidd með mismunandi hætti

  • Vinnuveitandi heldur eftir orlofslaununum og greiðir þau út þegar starfsmaður fer í frí á næsta orlofsári. Við hverja launaútborgun deilir vinnuveitandi í orlofslaunin með dagvinnutímakaupi starfsmannsins. Þannig er fundið út til hve margra dagvinnutíma orlofslaunin svara. Þessum stundum safnar starfsmaður upp allt orlofsárið. Þegar starfsmaður fer í frí á næsta orlofsári er heildarfjöldi þessara stunda tekinn og margfaldað með því dagvinnutímakaupi sem þá gildir. Sú fjárhæð ergreidd til starfsmanns, að frádregnum sköttum og öðrum gjöldum.
  • Orlofslaun greidd inn á orlofsreikning, sem er sérstakur bankareikningur á nafni starfsmanns. Starfsmaður getur nálgast inneign sína, vegna liðins orlofsárs, eftir15. maí ár hvert.
  • Starfsmenn á föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu halda gjarnan launum þegarþeir fara í orlof. Orlofslaun af yfirvinnu, bónusgreiðslum eða öðrum tilfallandi greiðslum eru þá greidd inn á orlofsreikning.

Athugið að þau lágmarksréttindi sem kveðið er á um í íslenskum kjarasamningum og lögum eiga aðeins við ef starfsmaðurinn nýtur ekki meiri réttinda til orlofs og orlofslauna í sínum ráðningarsamningi við sinn vinnuveitenda, eða í kjarasamningi eða lögum þess þjóðríkis þar sem hann venjulega starfar.

Orlofsauki

Í kjarasamningum er kveðið á um orlofsauka, þ.e. fleiri orlofsdaga og hærri orlofslaun en sem nemur lágmarksorlofi. Starfsmaður getur á grundvelli starfstíma hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda eða í starfsgreininni áunnið sér 25–30 daga orlofsrétt. Orlofslaun eru þá frá 10,64% til 13,04%. Reglur varðandi aukinn orlofsréttindi má finna í hverjum kjarasamningi fyrir sig.

Ákvörðun og tilkynning

Vinnuveitandi ákveður í samráði við starfsmenn hvenær orlof er veitt. Hann skal verða við óskum þeirra um orlofstíma að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja starfsmannsins skal hann tilkynna eins fljótt og hægt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli því.

Ertu með spurningar? Hafðu þá samband við:

Alþýðusamband Íslands (ASÍ)
Sími: 535 5600
www.asi.is
asi@asi.is

Samtök atvinnulífsins (SA)
Sími: 591 0000
www.sa.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu