Laun og vinnutími

Útsendur starfsmaður á rétt á lágmarkslaunum samkvæmt viðkomandi kjarasamningi meðan hann starfar á Íslandi. Einnig ber að virða íslenskar reglur hvað varðar hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma.

Laun og aðrir launaþættir

Samkvæmt lögum nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra (Hér er hægt að lesa nánar um lögin) þá eiga útsendir starfsmenn rétt til lágmarkslauna og annarra launaþátta samkvæmt kjarasamningum. Desember- og orlofsuppbætur teljast til annarra launaþátta. Einnig eiga þeir rétt til yfirvinnugreiðslna, orlofslauna og að farið sé eftir reglum um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma.

Í kaflanum Yfirlit yfir stéttarfélag og launataxta, má sjá upplýsingar um stéttarfélög á Íslandi, launataxta og lágmarkslaun í hverri starfsgrein.

Dæmi um lágmarkslaun

 

Lágmarkslaun ráðast fyrst og fremst af eðli starfs, starfsaldri og menntun starfsmanns.

o   Dæmi um lágmarkslaun (mánaðarlaun fyrir skatt, þ.e. brúttó laun) 22 ára verkamanns árið 2018 (01.05.2018 - 30.4.2019) :

·         Ræstingar kr. 266.735

·         Fiskvinnsla kr. 268.549

·         Byggingavinna kr. 270.931

·         Tækjastjórn kr. 278.131

·         Veitingastörf kr. 270.391

o   Lágmarkslaun (mánaðarlaun fyrir skatt, þ.e. brúttó laun) iðnaðarmanna með sveinspróf árið 2018 (frá 01.05.2018 - 30.04.2019) : kr. 365.063

o   Lágmarkslaun (mánaðarlaun fyrir skatt,  
    
þ.e. brúttó laun) matreiðslumanna/framreiðslumanna/kjötiðnaðarmanna með sveinspróf árið 2017 (frá 01.05.2018 - 30.4.2019) 
: kr.  357.383.

Lágmarkslaun skv. kjarasamningum miðast við fulla dagvinnu, þ.e. 40 klst. vinnu á viku. Fyrir vinnu umfram það er greitt yfirvinnukaup sem og vinna sem er innt af hendi um helgar.

Þrátt fyrir það sem að framan segir skulu lágmarkstekjur vera kr. 300.000 á mánuði fyrir fullt starf ef starfsmaður hefur starfað hjá sama fyrirtæki í a.m.k. sex mánuði og a.m.k. unnið 900 vinnustundir á þeim 6 mánuðum.

 

   

Eftirlit með starfskjörum

Í tengslum við skráningu erlendra fyrirtækja hjá Vinnumálastofnun, krefst stofnunin ráðningarsamninga útsendra starfsmanna á Íslandi, til að tryggja að starfsskilyrði þeirra og kjör séu í samræmi við íslenska kjarasamninga meðan þeir starfa hér á landi.

Þá er það hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélagana á hverjum vinnustað að fylgja því eftir að kjarasamningar séu virtir, einnig hvað varðar erlenda starfsmenn hjá hlutaðeigandi fyrirtæki. Ef það er einhver ástæða til að ætla að brotið sé á réttindum erlendra starfsmanna, þá hefur trúnaðarmaður heimild til að skoða launaseðla, ráðningarsamninga og önnur gögn sem varða starfskjör viðkomandi. Ef ekki er trúnaðarmaður á vinnustað, þá hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir.

Ef grunur leikur á að brotið sé á starfsmanni sem er hér á landi á vegum erlends fyrirtækis eða starfsmannaleigu, ber að leita aðstoðar trúnaðarmanns á viðkomandi vinnustað og tilkynna málið til Vinnumálastofnunar. Báðir aðilar geta kannað málið og krafist leiðréttingar. Ef ekki er trúnaðarmaður á vinnustaðnum, er rétt að snúa sér til viðkomandi stéttarfélags.

Vinnutími

Vinnutími skal vera í samræmi við ákvæði kjarasamninga en getur verið breytilegur eftir því hvaða samningur á við. Hér má sjá yfirlit yfir helstu reglur hvað vinnutíma varðar.

  • Dagvinna: dagvinnutímabil er 40 stundir á viku eða 173,33 tímar á mánuði, þ.e. virkir vinnutímar á viku eru 37 klst og 5 mín., auk 35 mínútna kaffitíma á dag (20 mínútur á morgnana og 15 mínútur eftir hádegi). Dagvinnutímum skal skila á virkum dögum, mánudag til föstudags og byrjar dagvinnutímabilið kl. 7 á morgnana og endar kl. 17. Dagvinnutímar eru samtals 8 stundir á degi hverjum.  
  • Yfirvinna: Yfirvinna hefst þegar starfsmaður  hefur skilað fullri dagvinnu. Önnur vinna utan dagvinnutímabils er þó greidd með yfirvinnukaupi, nema þegar um vaktavinnu er að ræða. Ekki  er heimilt að greiða dagvinnukaup á yfirvinnutímabili, jafnvel þó starfsmaður hafi ekki skilað fullum 8 klst. í dagvinnu þann daginn. Tímakaup í yfirvinnu er dagvinnukaup með 80% álagi.
  • Matartími: Lengd matartíma er mismunandi eftir starfsgreinum, frá 30 mínútum til klukkutíma og er yfirleitt tekin milli kl. 11.30 og 14:30. Matartíminn telst ekki til vinnutíma og er því ekki greiddur. Samkvæmt kjarasamningum iðnaðarmanna er matartími um helgar þó  talinn til vinnutíma. Einnig er matar- og kaffitími í yfirvinnu talinn til vinnutíma og greiddur með yfirvinnutaxta.
  • Kaffihlé: Kaffitími  er yfirleitt 35 mínútur á dag og teljast til vinnutíma. Heimild er þó fyrir því í kjarasamningum að samið sé um það í vinnustaðasamningum að stytta kaffitímann eða sleppa honum alveg.

Dæmi um vinnutímafyrirkomulag starfsmanns:

 

Hefur störf

Lýkur störfum

Matarhlé

Dagvinna

Yfirvinna

Mánudagur

7

19

0,5

8

3,5

Þriðjudagur

7

19

0,5

8

3,5

Miðvikudagur

7

19

0,5

8

3,5

Fimmtudagur

7

19

0,5

8

3,5

Föstudagur

7

19

0,5

8

3,5

Laugardagur

7

15

0,5

0

8

Sunnudagur

Frí

Samtals tímar á viku:

40

25,5

Samtals tímar á mánuði (miðað við 4 vinnuvikur):

160

102

Ertu með spurningar? Hafðu þá samband við:

Alþýðusamband Íslands (ASÍ)
Sími: 535 5600
www.asi.is
asi@asi.is

Samtök atvinnulífsins (SA)
Sími: 591 0000
www.sa.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu