Á Íslandi er samið um lágmarkslaun og önnur starfskjör í kjarasamningum.
Samkvæmt íslenskum lögum eru laun og önnur starfskjör sem samið er um í kjarasamningum lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla starfsmenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Á það einnig við um starfsmenn hjá atvinnurekendum sem standa utan samtaka atvinnurekenda eða hafa ekki sjálfir gert kjarasamninga við stéttarfélag. Ráðningarsamningar einstakra starfsmanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamnningar ákveða eru ógildir og ekki bindandi fyrir starfsmann.
Í kjarasamningum semja aðilar vinnumarkaðarins um lágmarkslaun fyrir hverja starfsgrein. Því eru launin ekki þau sömu í öllum starfsgreinum. Samið er um lágmarkslaun á grundvelli eðlis starfsins, reynslu og menntunar starfsmanna.
Kauptaxtar kjarasamninga hækka yfirleitt árlega, í upphafi hvers árs eða á öðrum þeim degi sem tilgreindur er í kjarasamningum.
Lágmarkslaun endurspegla ekki alltaf þau laun sem raunverulega eru greidd í viðkomandi atvinnugrein heldur ráðast þau oft af aðstæðum á markaði hverju sinni. Er þetta almennt nefnd markaðslaun og er það eitt einkenni launamyndunar á íslenskum vinnumarkaði. Gefur það hverjum starfsmanni og hans atvinnurekenda ákveðið frelsi til að semja um betri starfskjör en leiðir af lágmarki kjarasamninga.
Á vefsíðu ASÍ má finna upplýsingar um helstu réttindi á vinnumarkaði og gagnlega hlekki fyrir vinnandi fólk á íslandi.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ)
Sími: 535 5600
www.asi.is
asi@asi.is
Samtök atvinnulífsins (SA)
Sími: 591 0000
www.sa.is