Dvalar- og atvinnuleyfi

Áður en starfsmaður er sendur til Íslands til vinnu er nauðsynlegt að skoða reglur er varða rétt útlendinga til dvalar og atvinnu hér á landi, en sá réttur ákvarðast af þjóðerni starfsmannsins.

Starfsmaður sem er ríkisborgari EES-ríkis eða  EFTA-ríkis er undanþeginn kröfunni um dvalar- og atvinnuleyfi og er honum því frjálst að koma hingað til lands til að vinna. Smelltu hér til þess að sjá lista yfir þessi ríki.

Öðru máli gegnir um starfsmann sem er ríkisborgari ríkis sem er utan EES eða EFTA, en þá er meginreglan sú að starfsmaður þarf að fá útgefið dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi áður en hann má vinna hér á landi.

Á þeirri reglu er þó að finna undanþágu, sem má kalla 90 daga undanþáguna. Samkvæmt íslenskum lögum er útsendum starfsmanni, sem er ríkisborgari ríkis utan EES eða EFTA, heimilt að dveljast og vinna á Íslandi í allt að 90 daga á almanaksári, að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:

  • Að hinn útsendi starfsmaður sé í raun starfsmaður erlends þjónustufyrirtækis;
  • Og að hinn útsendi starfsmaður hafi gilt atvinnuleyfi í því ríki þaðan sem hann er útsendur frá.

Nauðsynlegt er að hafa samband við Vinnumálastofnun til að fá mat á því hvort þessi undanþága geti átt við um starfsmann áður en starfsmaður er sendur hingað til vinnu. Vinnumálastofnun mun þá óska eftir því að fyrirtækið leggi fram staðfestingu frá viðeigandi yfirvöldum um gildi atvinnuleyfisins í því ríki sem starfsmaðurinn starfar að jafnaði í.

Ef undanþágan getur ekki átt við um starfsmann sem senda á til Íslands, eða ef tímabilið fer yfir 90 daga á almanaksári, þá er nauðsynlegt að sækja um bæði dvalar- og atvinnuleyfi fyrir starfsmanninn.

Frekari upplýsingar um atvinnuleyfi má finna með því að smella hér á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá má finna frekari upplýsingar um dvalarleyfi á heimasíðu Útlendingastofnunar með því að smella hér.

Ertu með spurningar? Hafðu þá samband við:

Vinnumálastofnun
Sími: 515-4800
www.vmst.is
posting@vmst.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu