Skráning til VMST

Erlendum þjónustufyrirtækjum, starfsmannaleigum, og sjálfstætt starfandi einstaklingum sem starfa á Íslandi ber skylda til að skrá sig til Vinnumálastofnunar og afhenda stofnuninni ákveðnar upplýsingar.

Um erlend fyrirtæki sem senda tímabundið starfsmenn til Íslands í tengslum við veitingu þjónustu gilda lög nr. 45/2007. Það er markmið laganna að skýra línur og efla eftirlit varðandi gildi íslenskra kjarasamninga og annarra starfskjara á Íslandi um aðbúnað. Lögin taka mið af ákvæðum EES-samningsins og tilskipunum ESB um þjónustuviðskipti. Lögunum er ætlað að vinna gegn félagslegum undirboðum og stuðla að jafnri samkeppnisstöðu íslenskra og erlendra fyrirtækja.

Samkvæmt 7. gr. laganna er sjálfstætt starfandi einstaklingi sem veitir þjónustu hér á landi í lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skylt að veita Vinnumálastofnun tilteknar upplýsingar um starfsemi sína sem og aðgang að gögnum sem stofnunin kann að óska eftir til að sannreyna skráningu eða í þágu eftirlits með lögunum.

Þá gilda lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands. Með starfsmannaleigu er átt við þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda. Starfsmannaleigum sem ekki hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA ríki er óheimilt að veita hér þjónustu án staðfestu nema samningar sem Ísland á aðild að heimili slíkt. 

Skráningarskylda

Samkvæmt lögum nr. 45/2007 og nr. 139/2005 er þjónustufyrirtækjum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og starfsmannaleigum, sem hyggjast veita þjónustu hér á landi lengur en samtals tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum, skylt að skrá sig hjá Vinnumálastofnun og veita stofnuninni ákveðnar upplýsingar. Skráningin skal gerð eigi síðar en sama dag og starfsemi hefst hér á landi.

Erlend þjónustufyrirtæki: Skráningin er gerð með rafrænum hætti með því að smella hér

Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Skráningin er gerð með rafrænum hætti með því að smella hér

Starfsmannaleigur: Skráningin er gerð mað rafrænum hætti með því að smella hér

Undanþága frá upplýsingaskyldu þjónustufyrirtækis er vegna þjónustu sem felur í sér sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerð tækja og er ekki ætlað að vara lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum og í þeim tilvikum þarf fyrirtæki ekki að skrá sig.

Leiki vafi á um hvort þjónustufyrirtæki beri að tilkynna sig til Vinnumálastofnunar skal í öllum tilvikum hafa samband við stofnunina til þess að fá ráðleggingar þar um.

 

Hvaða upplýsingar skulu veittar?

Í skráningu til Vinnumálastofnunar skal meðal annars veita upplýsingar um:

  • Nafn fyrirtækis, heimilisfang í heimaríki, virðisaukaskattsnúmer, nafn fyrirsvarsmanns og netfang fyrirtækis.
  • Tegund þjónustu sem veitt er.
  • Nafn og netfang fulltrúa á Íslandi.
  • Yfirlit yfir þá starfsmenn sem starfa munu á vegum fyrirtækisins með nánari upplýsingum um hvern starfsmann, s.s. nafn, fæðingardagur, heimilisfang í heimaríki, ríkisfang, dvalarstað á Íslandi og áætlaðan dvalartíma og upplýsingar um starfsréttindi eftir því sem við á.
  • Upplýsingar um hvort starfsmenn njóti almannatryggingarverndar í heimaríki (staðfest með A1 vottorði).

Þá ber fyrirtækjum að afhenda Vinnumálastofnun:

  • Afrit af þjónustusamningi milli fyrirtækisins og notendafyrirtækisins.
  • Afrit af ráðningarsamningum allra starfsmanna sem eru sendir til Íslands.
  • Gögn sem sýna fram á raunverulega starfsemi fyrirtækisins í heimaríki fyrirtækisins, t.d. gögn frá skattyfirvöldum eða sambærilegum stjórnvöldum, upplýsingar um starfsleyfi, eftir því sem við á, og umfang veltu í heimaríki.

Vinnumálastofnun getur kallað eftir frekari upplýsingum frá fyrirtækinu telji stofnunin þörf á því.

Þjónustufyrirtækið skal enn fremur hafa aðgengilegt afrit af launaseðlum, vinnutímaskýrslum og staðfestingu á greiðslu launa meðan það veitir þjónustu hér á landi og í einn mánuð eftir að starfsemi þess lýkur. Eigi síðar en sama dag og starfsemi hefst skal þjónustufyrirtæki upplýsa Vinnumálastofnun um hvar stofnunin geti nálgast framangreindar upplýsingar og skal þjónustufyrirtækið bregðast við beiðni Vinnumálastofnunar um afhendingu á þessum gögnum innan tveggja virkra daga frá því að beiðni stofnunarinnar berst.

Ráðningarsamningur

Þjónustufyrirtækjum og starfsmannaleigum ber skylda til að afhenda Vinnumálastofnun afrit af ráðningarsamningum starfsmanna sem eru sendir til Íslands í vinnu. Stofnunin yfirfer ráðningarsamninga með það að markmiði að athuga hvort starfskjör starfsmannanna séu í samræmi við íslenska kjarasamninga. Ef ráðningarsamningar kveða á um betri starfskjör skulu þeir halda gildi sínu.

  • Starfskjör starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja:
    • Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja eiga rétt til lágmarkslauna og annarra launaþátta til samræmis við íslenska kjarasamninga.
    • Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja eiga rétt til yfirvinnugreiðslna til samræmis við íslenska kjarasamninga.
    • Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja eiga rétt til orlofs- og orlofslauna.
    • Starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja eiga rétt til orlofs- og desemberuppbótar. 
    • Virða ber reglur um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma útsendra starfsmanna. 
       
  • Starfskjör starfsmanna starfsmannaleigna
    • Starfsmenn starfsmannaleigna skulu að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og þeir hefðu notið ef þeir hefðu verið ráðnir beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi. Þannig skulu starfsmenn erlendra starfsmannaleign njóta fullra réttinda samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum þann tíma sem þeir starfa hér á landi. 

Ef fyrirtæki kýs að útbúa nýja ráðningarsamninga fyrir það tímabil sem starfsmaður vinnur á Íslandi, sem á sérstaklega við ef starfskjör útsendra starfsmanna samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningum eru lakari en viðeigandi kjarasamningur kveður á um, þá bendum við á þessa fyrirmynd á ráðningarsamningi.

Nauðsynlegt  er að á ráðningarsamningi sé meðal annars að finna upplýsingar um:

  • Dagvinnu- og yfirvinnukaup.
  • Upplýsingar um vinnutíma.
  • Upplýsingar um starfsheiti og menntun.
  • Upplýsingar um orlof og orlofslaun. 
  • Upplýsingar um orlofs- og desember uppbætur.

Þegar ráðningarsamningur er fylltur út er mikilvægt að skoða hver séu lágmarkskjörin á Íslandi í viðeigandi starfsgrein. Smelltu hér til að fá nánari umfjöllun um starfskjör á Íslandi.

Launatölur skulu gefnar upp í íslenskum krónum (ISK). Sú krafa er gerð til þess að tryggja að laun geti ekki farið niður fyrir lágmarkslaun í viðeigandi starfsgrein ef til gengisbreytinga koma.

Staðfesting á skráningu

Þegar Vinnumálastofnun hefur borist skráning á þjónustufyrirtæki eða starfsmannaleigu er fyrirtækinu send staðfesting með tölvupósti á skráningu þess.

Þessa staðfestingu ber fyrirtækinu að afhenda notendafyrirtæki eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að starfsemi fyrirtækisins hófst hér á landi. Notendafyrirtæki ber að tilkynna það til Vinnumálastofnunar ef staðfestingin er ekki afhent.

Fulltrúi

Veiti fyrirtæki þjónustu á Íslandi í samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum skal það hafa fulltrúa hér á landi. Fulltrúinn getur verið verið einn af starfsmönnum fyrirtækisins sem starfar tímabundið hér á landi. Ekki er skylt að tilnefna fulltrúa ef færri en sex starfsmenn starfa að jafnaði hér á landi á vegum fyrirtækisins. Fulltrúi fyrirtækisins kemur fram fyrir hönd þess, ber ábyrgð á að veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt lögum nr. 45/2007 og skal vera bær til þess að taka við stjórnvaldsákvörðunum fyrir hönd fyrirtækisins.

Eftirlit með launagreiðslum 

Á meðan starfstíma erlends þjónustufyrirtækis og starfsmannaleigu varir á Íslandi hefur Vinnumálastofnun virkt eftirlit með því að staðið sé rétt að greiðslum launa til útsendra starfsmanna. Í því felst að Vinnumálastofnun óskar eftir afritum af launaseðlum, vinnutímaskýrslum og bankamillifærslum.

Til þess að einfalda skoðun Vinnumálastofnunar á greiðslum launa fer stofnunin þess á leit við fyrirtækin að útbúnir séu launaseðlar fyrir hvern starfsmann. Til hagræðingar hefur Vinnumálastofnun útbúið sniðmát að launaseðli sem sjálfsagt er að notast sé við kjósi fyrirtæki það. 

Einnig heimsækir Vinnumálastofnun starfsstöðvar erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna þann tíma sem fyrirtækin eru með starfsemi hér á landi þar sem upplýsinga er aflað og rætt er við fyrirsvarsmenn og starfsmenn.

 

Ertu með spurningar? Hafðu þá samband við:

Vinnumálastofnun
Sími: 515-4800
www.vmst.is
posting@vmst.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu